Langt um liðið

Það er komin einhver sumarleti í mann, og ekkert annað við því að gera en bera fyrir sig ládeyðunni sem fylgir 38 stiga hita.

Í dag er liðinn heill mánuður frá því ég kom aftur hingað út eftir 3 vikna dvöl heima á Íslandi. Margt bar við á klakanum, en hérna er "helstið" í stuttu máli:

-Ég var varla lentur fyrr en ég var mættur á 10 ára endurfundi gamla árgangsins míns úr MR. Það var gaman að sjá allt liðið aftur, og þótt ótrúlegt sé vorum við ekkert sérlega illa farin af elli. Mætingin var góð og stemmningin líka, og ég skemmti mér vel. Verst var að lenda illilega í íslensku verðlagi: Gosdós og samloka að afloknu kvöldinu kostaði 1200 krónur! Það þarf sko aldeilis að endurbæta gjöld, skatta og tolla heimavið, annars er ekki nokkur kostur fyrir eðlilegt fólk að lifa þarna án þess að vera endalaust í skuld hjá Euro og Visa.

-Annað sem kom mér talsvert á óvart var að það var hvergi hægt að panta sér drykk á skemmtistað á íslensku, þar sem allt starfsfólkið var af erlendu bergi brotið og ekkert þeirra hafði haft fyrir því að læra íslensku, hvað þá meira en nokkur orð á ensku. Ég ætla ekki að tjá mig um hvort þetta sé gott eður ei (læt nægja að segja að ég sé hlynntur fjölbreytni mannlífs) en það kom mér í opna skjöldu hversu margir útlendingar búa nú á Íslandi. Ég hef ekki verið mikið heima undanfarin ár (hafði t.d. ekki upplifað 17. júní á Íslandi síðan 1999), og þessi breyting var ákaflega áberandi.

-Upp úr þurru var mér boðið í NATO-veislu á herskipinu USS Normandy í Sundahöfn. Þetta var undarleg en mjög áhugaverð samkoma (þakka bandaríska sendiráðinu boðið), þar sem alls kyns fólk kom saman. Sjóliðar, yfirmenn NATO-herdeilda, stjórnmálamenn, og ekki má gleyma ungfrú Íslandi, sem gnæfði yfir smávöxnu hermennina og varð að beygja sig í hnjánum í hvert skipti sem einhver tók af henni mynd. Mjög fyndin uppákoma. Þetta var fyrsta heimsókn mín í borð um herskip, og ekki get ég ímyndað mér að eyða vikum eða jafnvel mánuðum á svona dalli. Jafnframt hefur aldrei neinn heilsað mér að hermannasið áður og kallað mig "sir" í sífellu, a.m.k. á Íslandi (maður hefur nú svosem lent í því hérna í Washington).

-Brúðkaup elsta vinar míns var jafnframt heljarinnar gleði. Athöfnin sjálf fór fram í Lágafellskirkju á gullfallegum laugardegi, og veislan var haldin í golfklúbbnum í Grafarholti, þar sem maturinn var alveg hreint til fyrirmyndar. Brúðurin var gullfalleg og brosti út í eitt allan daginn, en ég er ekki frá því að félagi minn hafi verið hálf orðlaus lengi vel um kvöldið LoL En út frá þessu kvöldi gerðist það að ég fór í golf í fyrsta sinn á ævinni, og varð mér barasta alls ekki til skammar. Aldrei að vita nema maður taki upp þetta miðaldramannasport einhvern daginn.

-Heimsóknir á Þjóðminjasafnið, Hafnarhúsið, Ásmundarsafn, Kjarvalsstaði... íslensk söfn hafa tekið miklum framförum, og þá sérstaklega Þjóðminjasafnið. Stóra sýningin þeirra er til mikillar fyrirmyndar. Ég man að þegar maður var neyddur þangað með grunnskólanum 10 ára gamall var þetta alveg skelfilega leiðinlegt, en nú myndi ég glaður fara þangað hvenær sem er. Ég hvet alla sem ekki hafa séð safnið að fara sem fyrst.

-Eitt sem ég hef tekið eftir í endalausum flugferðum mínum með Icelandair er þetta: Flugliðarnir brosa varla. Þegar ég flaug til Íslands stökk engum þeirra bros, og á leiðinni aftur hingað út var þetta ekki mikið betra. Hvað er að? Mörgum leiðist í vinnunni, en þetta er þjónustustarf. Við borgum morð fjár til þess að fljúga með þessu flugfélagi, sérstaklega þau okkar sem fljúga til Bandaríkjanna þar sem okkur bjóðast ekki aðrir möguleikar. Er til of mikils mælst að starfmenn flugfélagsins brosi aðeins? Þetta er umtalað á netsíðum flugáhugamanna, og er okkur síst til frama erlendis. Bandaríkjamaðurinn sem sat við hliðina á mér aðra leiðina sagði það best: "I would like to ask for some more water, but I'm afraid she's going to yell at me. The girl in the welcome video is the only one who's smiled at me all day." Er þetta virkilega ímyndin sem Icelandair er að reyna að selja viðskiptavinum?

O jæja... eftir 3 vikna sérdeilis góða dvöl heimavið var maður svo kominn aftur hingað út. Og viti menn, var ekki búið að breyta aldeilis til við stjórnvölinn á U.S. Agency for International Development, þar sem ég vinn. Svo virtist sem gamli stjórnandinn, Randall Tobias, hafi átt það til að panta sér vændiskonur til að "nudda" sig. Ekki gengur það hjá manninum sem á að selja erlendis þá stefnu Bush að best sé að stunda helst ekki kynlíf, og USAID rekur líka flest verkefnin erlendis sem vinna gegn vændi. En sem sagt, nú er það Henrietta Fore sem stjórnar. Hún var áður aðstoðarutanríkisráðherra, og ég hitti hana einmitt þegar hún var í því embætti. Hún virðist ágæt - lágvaxin og rauðhærð, og kynnti sig með eigin nafni frekar en titli: "Hello, I'm Henrietta." Ég þarf einmitt að fara upp á þing næsta þriðjudag þar sem öldungadeildin á að leggja blessun sína yfir hana. Mér skilst að Obama hafi mælt gegn henni vegna einhverra minnihlutahópavandræða, svo það verður áhugavert að sjá hvað hann segir við þetta tækifæri. Hún er þó a.m.k. ekki líkleg til að panta sér vændiskonur!

Maður fylgist þessa dagana með Ingibjörgu Sólrúnu í Ísrael og Palestínu. Hún stendur sig bara vel, finnst mér. Hún virðist ekki vera að falla fyrir skjallinu sem báðir aðilar bera í hana, og er heldur ekki með einhverjar óraunhæfar hugmyndir um getu Íslands til þess að taka þátt í friðarferlinu. Ég verð nú bara að segja það að mér finnst bróðir minn líka standa sig mjög vel, og það var gaman að sjá hann spjalla við Hanan Ashrawi. Ég hitti hana einmitt fyrir nokkrum árum í Philadelphiu, og ræddi við hana á stuttum hádegisverðarfundi. Mér fannst hún mjög vel gefin og ekki sérlega herská, þó hún sé ákafur stuðningsmaður síns fólks. Ég heyrði einnig Netanyahu halda ræðu á þeim tíma, og hann var talsvert herskárri og hafði ekkert gott um Palestínumenn að segja, því miður. Vonandi verður einhver breyting til batnaðar fyrir botni Miðjarðarhafs á næstu árum.


Ein svona í lokin...

Ég er aldeilis að leggja af stað á réttum tíma. Í dag er fyrsti dagurinn sem nær yfir 90 gráður á Fahrenheit (u.þ.b. 33 gráður á Celsíus), og einnig er búið að lýsa yfir "Code Orange", sem þýðir að hættulegt magn útfjólublárra geisla herjar nú á Washington, og börnum, gamalmennum og astmasjúklingum er ráðlagt að halda sig heima. Oj. Mikið hlakka ég til að komast heim í heiðardalinn!!! 15 gráður, here I come!

Brottför nálgast

Jæja, þá eru 24 klst. í brottför í fríið til Íslands. Mikið verður gott að komast á klakann aftur eftir 8 mánaða fjarveru. Ég stefni að því að gera það sem ég geri alltaf innan tveggja sólarhinga - borða pylsu, drekka appelsín í gleri, og slafra í mig einu stykki bragðaref. Mmmm... sumt er alltaf best á Íslandi.

Ég bjó til hamborgara í matinn í gær, en gerði þá aðeins meira "gourmet" með því að sleppa venjulegum osti, hráum lauk, tómatsósu og sinnepi, en setti í staðinn góða sneið af spænskum fýluosti að nafni Valdeon, og góða slummu af heimatilbúni tómat/lauk-chutney. Namm namm. Ofnbakaðar kartöfluskífur (með gamla góða kartöflukryddinu) fylgdu með.

Er nú að lesa nýjustu bók Cormac McCarthy, The Road. Virkilega góð lesning þar á ferð. Kláraði síðast algjöran strandareyfara, The Swarm, sem reyndist vera evrópskur umhverfisáróður af bestu/verstu gerð. Ekki nóg með að gæjanum hafi tekist að drekkja Noregi í flóðbylgju, heldur voru einhverjar ormadruslur að éta sig í gegnum Mið-Atlantshafshrygginn. Stórfurðulegt allt saman.

Jæja, þetta er síðasta færslan áður en ég flýg heim. Sjáumst á Íslandi klukkan 06:20 á föstudagsmorgun!


Svækja, kóf, o.s.frv.

Sumarið er komið hérna í Washington, DC og það þýðir 100% rakastig og 33 stiga hita. Ojbara og ullabjakk. Ef ég gæti eytt vetrunum hér og sumarmánuðunum á Íslandi væri það hið besta mál. Það er einfaldlega ekki hægt að gera ráð fyrir því að eðlilegt fólk fúnkeri fyllilega í svona svækju. Ég horfi öfundaraugum á Veðurstofu Íslands (flott ný heimasíðan þeirra...) og 10-14 stiga hitann á höfuðborgarsvæðinu. Þið Íslendingar vitið ekki hvað þið hafið það gott. Íslensk sumur eru fyrsta flokks. Enn betra er að þurfa bara að húka í flugvél í 2-3 tíma til að komast í suður-evrópsk sumarveður.

Það er þriggja daga helgi hér, þar sem dagurinn í dag er Memorial Day - enn ein ástæða Kananna til að drekkja sér í föðurlandsást, syngja þjóðsönginn og klæðast ameríska fánanum á einhvern óviðeigandi hátt. Ekki kvarta ég - alltaf gott að fá frí í vinnunni á mánudögum Devil

Íslandsferðin nálgast óðfluga. Ég sest upp í Icelandairvélina á fimmtudagskvöld og snemma morguninn eftir rúlla ég inn að fríhöfninni í Keflavík. Það verður gott að komast heim í gott frí, heilar þrjár vikur. Eitt stykki brúðkaup, eitt stykki MR-reunion, útilega, 17. júní... gott fyrir geðheilsuna.


YouTube - ekki bara drasl og klám?

Stundum leiðist manni í vinnunni (hemm) og þá vill maður oft vafra aðeins um vefinn. Í dag rápaði ég inn á YouTube, sem ég hef yfirleitt ekki skoðað mikið. Þar fann ég þá Barats og Bereta, sem eru yngri en ég og talsvert fyndnari menn. Þeir búa til stuttar grínmyndir fyrir netið og það verður að segjast að ég hló eins og fáviti yfir hádegismatnum í dag. Skoðið þá hér. Í sérlegu uppáhaldi hjá mér eru "Mother's Day", "Theme Song" og "Completely Uncalled For". Ég komst að því að þeir skrifuðu þátt fyrir NBC sem ekki komst á dagskrána... spurning hvort sá er fáanlegur á netinu einhvers staðar.

Kvöldmaturinn: Heimatilbúin pizza, með deigi úr pizzaeldhúsinu í Whole Foods. Splæsti m.a.s. í prosciutto til að setja ofan á. Mmm.....


xB = Geirfugl íslenskra stjórnmála

Mikið er ég feginn að Framsóknarmenn eru svo gott sem komnir í útrýmingarhættu. Þetta fólk er búið að hanga í stjórn sem leppar Sjálfstæðisflokksins nógu lengi, og það var kominn tími á góða, langa útlegð. Ekki hjálpaði Jónína Bjartmarz með tengdadótturskandalinn. Ég varð einu sinni vitni að því að hún réðst hér um bil á Bill Clinton á Austurvelli, og hún má þakka Guði fyrir að hafa ekki verið skotin niður á staðnum - Secret Service hefur ekki húmor fyrir svona hegðun. Lesið endilega blogg Björns Inga þessa vikuna. Drengurinn er svo bitur að maður fær næstum því tannkul af því að lesa hann.

Þingvallastjórnin (Baugsstjórnin?) er tekin við, og það er svo sem ágætt. Það veitti ekki af uppstokkun í þessu öllu saman. Geir og Þorgerður halda sínum ráðuneytum, sem er ágætt. Sjallarnir fá loksins heilbrigðisráðuneytið, og vonandi tekst stuttbuxnapiltinum Guðlaugi Þór að rétta við kerfið sem sveitamennirnir rassskelltu undanfarin 12 ár. Mér finnst stórmerkilegt að Björn sitji enn í dómsmálráðuneytinu eftir það sem hann hefur sagt um Samfylkinguna, og ekki síður allar útstrikanirnar. Árni situr enn í fjármálaráðuneytinu, og Einar heldur í sjávarútveginn, en fær landbúnaðinn líka. Merkilegast finnst mér eiginlega að xD hafi ekki gert frekari breytingar. Ég tek líka undir orð annarra að það er skelfilegt að geta aðeins sett eina konu í stjórn. En það er víst ekki um margar að velja hjá þeim, þetta er voðalegur hvítra-kalla-flokkur Wink

Samfylkingin er hins vegar með 3 konur og 3 karla. Hvort það var góð hugmynd að lofa því fyrirfram kemur í ljós síðar. Komust þeir hæfustu í stjórn, eða var kynskiptingin látin ráða öllu? Ingibjörg Sólrún fer í utanríkisráðuneytið, sem hlýtur að vera bót og betrun eftir Dóra og Valgerði. Hún getur þó a.m.k. stamað upp úr sér sæmilegri ensku! Það kemur ekki á óvart að Össur fer í nýorganiserað iðnaðarráðuneyti. Hálendin fá frið næstu 2 árin, og það er hið besta mál. Jóhanna snýr aftur (er hennar tími kominn?) í það sem nú heitir víst velferðarráðuneytið. Akureyringurinn Möller fer í samgönguráðuneytið. Ég veit svo gott sem ekkert um manninn, en óska honum alls hins besta. Þórunn Sveinbjarnar tekur við umhverfisráðuneytinu (bless, Jónína!) og það er gott; hún virðist vera vel gefin, yfirveguð og umhverfisvæn manneskja með góða þekkingu á málunum. Mest kom mér á óvart að Björgvin skuli verða viðskiptaráðherra, sem þýðir að skólafélagi minn Ágúst Ólafur þarf að bíta í eitt stykki súrt epli. Það finnst mér miður, því strákurinn hefur staðið sig firnavel. Hann er vel að máli kominn, hörkuduglegur, og það skemmir sennilega ekki fyrir að ég er sammála honum að mörgu leyti. Greinar hans um Evrópumálin hafa verið mjög góðar, og hann hefði vel átt heima í stjórninni. En hann er ungur (sem þýðir að ég er ungur líka, og það er alltaf gott að heyra...) og hann á öruggan ráðherrastól í framtíðinni.

Stærsta spurningin: Hvaða Sjalli tekur við af BB þegar hann hættir á miðju kjörtímabilinu af "persónulegum ástæðum"? Verður það Guðfinna? Illugi? Kristján Þór? Bjarni Ben? Þeir verða eiginlega að skipta inn einum kvenmanni áður en yfir líkur, svo Guðfinna á góðan séns. Þeir færa sem eflaust reyndari ráðherra í dómsmálin og gefa henni veigaminna verkefni.

Ég hélt að pólitíska skítalyktin væri nóg hérna í Washington. Mér þykir leitt að fýlan sé orðin svona mikil á Fróninu líka. Ussumsvei.

O jæja... nú er það beint í eldhúsið að kokka íslenskar fiskibollur með síðustu ýsunni. Frown Eins gott að muna eftir því að kaupa annan kassa í fríhöfninni á leiðinni út í næsta mánuði.


Ástkæra ylhýra...

Elsku Hewlett Packard. Takk fyrir að hanna lyklaborð sem leyfir mér að skrifa á íslensku. Nú get ég loksins hætt að skrifa "ævisöguna" á ameríska plebbamálinu.

Velkomin á nýju bloggsíðuna mína. Hér eftir getið þið fylgst með mér hérna og ég mun leyfa eldri bloggsíðum að deyja hægt og rólega. Ég lofa ekkert endilega að ég bloggi oftar eða betur en áður (það er sko að lofa upp í ermina á sér...) en ég skal reyna eftir bestu getu að skrifa reglulega uppfærslur um ævintýri drengsins í útlöndum.

Ég eyddi helginni í Williamsburg þar sem Kiddi var að útskrifast úr William & Mary. Gott hjá stráknum. Við Sean notuðum tækifærið og komum við í Richmond, sem eitt sinn var höfuðborg Suðurríkjanna, þar sem við skoðuðum tvö stykki söfn. Á öðru voru bresk kónga-og skipamálverk, sem mörg hver hanga yfirleitt í hinum ýmsu híbýlum bresks kóngafólks, þ.á m. Buckingham-höll og Windsor-kastala. Í gærmorgun heimsóttum við svo Jamestown, þar sem John Smith kom fyrir 400 árum með fyrstu bresku nýlendubúana í Bandaríkjunum. Ég mætti á staðinn 400 árum og einni viku síðar Grin. Þar sem ég er sögunörd fannst mér þetta frekar æðislegt allt saman. Tók fullt af myndum og lofa að koma þeim á netið í vikunni.

Sit hér og horfi á Food Network og plana matseðil kvöldsins, sem verður hummus-hamborgari með sætum kartöflum. Ég fékk þessa uppskrift frá áströlskum kokki að nafni Bill Granger, nánar tiltekið úr bókinni Bill's Food. Ég hlakka til að smakka...

Svo verður maður bara kominn á klakann eftir 10 daga eða svo. Skrýtin tilfinning, en ég hlakka alveg rosalega til. Þetta verður langt og gott frí, og ég ætla að njóta þess vel.

Ég ætla tjá mig um nýafstaðnar kosningar á morgun, þegar ég er búinn að lesa fréttir helgarinnar aðeins betur. Eitt get ég þó sagt: Bless, Framsókn. Farið hefur fé betra.


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband