23.5.2007 | 21:14
xB = Geirfugl íslenskra stjórnmála
Mikið er ég feginn að Framsóknarmenn eru svo gott sem komnir í útrýmingarhættu. Þetta fólk er búið að hanga í stjórn sem leppar Sjálfstæðisflokksins nógu lengi, og það var kominn tími á góða, langa útlegð. Ekki hjálpaði Jónína Bjartmarz með tengdadótturskandalinn. Ég varð einu sinni vitni að því að hún réðst hér um bil á Bill Clinton á Austurvelli, og hún má þakka Guði fyrir að hafa ekki verið skotin niður á staðnum - Secret Service hefur ekki húmor fyrir svona hegðun. Lesið endilega blogg Björns Inga þessa vikuna. Drengurinn er svo bitur að maður fær næstum því tannkul af því að lesa hann.
Þingvallastjórnin (Baugsstjórnin?) er tekin við, og það er svo sem ágætt. Það veitti ekki af uppstokkun í þessu öllu saman. Geir og Þorgerður halda sínum ráðuneytum, sem er ágætt. Sjallarnir fá loksins heilbrigðisráðuneytið, og vonandi tekst stuttbuxnapiltinum Guðlaugi Þór að rétta við kerfið sem sveitamennirnir rassskelltu undanfarin 12 ár. Mér finnst stórmerkilegt að Björn sitji enn í dómsmálráðuneytinu eftir það sem hann hefur sagt um Samfylkinguna, og ekki síður allar útstrikanirnar. Árni situr enn í fjármálaráðuneytinu, og Einar heldur í sjávarútveginn, en fær landbúnaðinn líka. Merkilegast finnst mér eiginlega að xD hafi ekki gert frekari breytingar. Ég tek líka undir orð annarra að það er skelfilegt að geta aðeins sett eina konu í stjórn. En það er víst ekki um margar að velja hjá þeim, þetta er voðalegur hvítra-kalla-flokkur
Samfylkingin er hins vegar með 3 konur og 3 karla. Hvort það var góð hugmynd að lofa því fyrirfram kemur í ljós síðar. Komust þeir hæfustu í stjórn, eða var kynskiptingin látin ráða öllu? Ingibjörg Sólrún fer í utanríkisráðuneytið, sem hlýtur að vera bót og betrun eftir Dóra og Valgerði. Hún getur þó a.m.k. stamað upp úr sér sæmilegri ensku! Það kemur ekki á óvart að Össur fer í nýorganiserað iðnaðarráðuneyti. Hálendin fá frið næstu 2 árin, og það er hið besta mál. Jóhanna snýr aftur (er hennar tími kominn?) í það sem nú heitir víst velferðarráðuneytið. Akureyringurinn Möller fer í samgönguráðuneytið. Ég veit svo gott sem ekkert um manninn, en óska honum alls hins besta. Þórunn Sveinbjarnar tekur við umhverfisráðuneytinu (bless, Jónína!) og það er gott; hún virðist vera vel gefin, yfirveguð og umhverfisvæn manneskja með góða þekkingu á málunum. Mest kom mér á óvart að Björgvin skuli verða viðskiptaráðherra, sem þýðir að skólafélagi minn Ágúst Ólafur þarf að bíta í eitt stykki súrt epli. Það finnst mér miður, því strákurinn hefur staðið sig firnavel. Hann er vel að máli kominn, hörkuduglegur, og það skemmir sennilega ekki fyrir að ég er sammála honum að mörgu leyti. Greinar hans um Evrópumálin hafa verið mjög góðar, og hann hefði vel átt heima í stjórninni. En hann er ungur (sem þýðir að ég er ungur líka, og það er alltaf gott að heyra...) og hann á öruggan ráðherrastól í framtíðinni.
Stærsta spurningin: Hvaða Sjalli tekur við af BB þegar hann hættir á miðju kjörtímabilinu af "persónulegum ástæðum"? Verður það Guðfinna? Illugi? Kristján Þór? Bjarni Ben? Þeir verða eiginlega að skipta inn einum kvenmanni áður en yfir líkur, svo Guðfinna á góðan séns. Þeir færa sem eflaust reyndari ráðherra í dómsmálin og gefa henni veigaminna verkefni.
Ég hélt að pólitíska skítalyktin væri nóg hérna í Washington. Mér þykir leitt að fýlan sé orðin svona mikil á Fróninu líka. Ussumsvei.
O jæja... nú er það beint í eldhúsið að kokka íslenskar fiskibollur með síðustu ýsunni. Eins gott að muna eftir því að kaupa annan kassa í fríhöfninni á leiðinni út í næsta mánuði.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.