Langt um liðið

Það er komin einhver sumarleti í mann, og ekkert annað við því að gera en bera fyrir sig ládeyðunni sem fylgir 38 stiga hita.

Í dag er liðinn heill mánuður frá því ég kom aftur hingað út eftir 3 vikna dvöl heima á Íslandi. Margt bar við á klakanum, en hérna er "helstið" í stuttu máli:

-Ég var varla lentur fyrr en ég var mættur á 10 ára endurfundi gamla árgangsins míns úr MR. Það var gaman að sjá allt liðið aftur, og þótt ótrúlegt sé vorum við ekkert sérlega illa farin af elli. Mætingin var góð og stemmningin líka, og ég skemmti mér vel. Verst var að lenda illilega í íslensku verðlagi: Gosdós og samloka að afloknu kvöldinu kostaði 1200 krónur! Það þarf sko aldeilis að endurbæta gjöld, skatta og tolla heimavið, annars er ekki nokkur kostur fyrir eðlilegt fólk að lifa þarna án þess að vera endalaust í skuld hjá Euro og Visa.

-Annað sem kom mér talsvert á óvart var að það var hvergi hægt að panta sér drykk á skemmtistað á íslensku, þar sem allt starfsfólkið var af erlendu bergi brotið og ekkert þeirra hafði haft fyrir því að læra íslensku, hvað þá meira en nokkur orð á ensku. Ég ætla ekki að tjá mig um hvort þetta sé gott eður ei (læt nægja að segja að ég sé hlynntur fjölbreytni mannlífs) en það kom mér í opna skjöldu hversu margir útlendingar búa nú á Íslandi. Ég hef ekki verið mikið heima undanfarin ár (hafði t.d. ekki upplifað 17. júní á Íslandi síðan 1999), og þessi breyting var ákaflega áberandi.

-Upp úr þurru var mér boðið í NATO-veislu á herskipinu USS Normandy í Sundahöfn. Þetta var undarleg en mjög áhugaverð samkoma (þakka bandaríska sendiráðinu boðið), þar sem alls kyns fólk kom saman. Sjóliðar, yfirmenn NATO-herdeilda, stjórnmálamenn, og ekki má gleyma ungfrú Íslandi, sem gnæfði yfir smávöxnu hermennina og varð að beygja sig í hnjánum í hvert skipti sem einhver tók af henni mynd. Mjög fyndin uppákoma. Þetta var fyrsta heimsókn mín í borð um herskip, og ekki get ég ímyndað mér að eyða vikum eða jafnvel mánuðum á svona dalli. Jafnframt hefur aldrei neinn heilsað mér að hermannasið áður og kallað mig "sir" í sífellu, a.m.k. á Íslandi (maður hefur nú svosem lent í því hérna í Washington).

-Brúðkaup elsta vinar míns var jafnframt heljarinnar gleði. Athöfnin sjálf fór fram í Lágafellskirkju á gullfallegum laugardegi, og veislan var haldin í golfklúbbnum í Grafarholti, þar sem maturinn var alveg hreint til fyrirmyndar. Brúðurin var gullfalleg og brosti út í eitt allan daginn, en ég er ekki frá því að félagi minn hafi verið hálf orðlaus lengi vel um kvöldið LoL En út frá þessu kvöldi gerðist það að ég fór í golf í fyrsta sinn á ævinni, og varð mér barasta alls ekki til skammar. Aldrei að vita nema maður taki upp þetta miðaldramannasport einhvern daginn.

-Heimsóknir á Þjóðminjasafnið, Hafnarhúsið, Ásmundarsafn, Kjarvalsstaði... íslensk söfn hafa tekið miklum framförum, og þá sérstaklega Þjóðminjasafnið. Stóra sýningin þeirra er til mikillar fyrirmyndar. Ég man að þegar maður var neyddur þangað með grunnskólanum 10 ára gamall var þetta alveg skelfilega leiðinlegt, en nú myndi ég glaður fara þangað hvenær sem er. Ég hvet alla sem ekki hafa séð safnið að fara sem fyrst.

-Eitt sem ég hef tekið eftir í endalausum flugferðum mínum með Icelandair er þetta: Flugliðarnir brosa varla. Þegar ég flaug til Íslands stökk engum þeirra bros, og á leiðinni aftur hingað út var þetta ekki mikið betra. Hvað er að? Mörgum leiðist í vinnunni, en þetta er þjónustustarf. Við borgum morð fjár til þess að fljúga með þessu flugfélagi, sérstaklega þau okkar sem fljúga til Bandaríkjanna þar sem okkur bjóðast ekki aðrir möguleikar. Er til of mikils mælst að starfmenn flugfélagsins brosi aðeins? Þetta er umtalað á netsíðum flugáhugamanna, og er okkur síst til frama erlendis. Bandaríkjamaðurinn sem sat við hliðina á mér aðra leiðina sagði það best: "I would like to ask for some more water, but I'm afraid she's going to yell at me. The girl in the welcome video is the only one who's smiled at me all day." Er þetta virkilega ímyndin sem Icelandair er að reyna að selja viðskiptavinum?

O jæja... eftir 3 vikna sérdeilis góða dvöl heimavið var maður svo kominn aftur hingað út. Og viti menn, var ekki búið að breyta aldeilis til við stjórnvölinn á U.S. Agency for International Development, þar sem ég vinn. Svo virtist sem gamli stjórnandinn, Randall Tobias, hafi átt það til að panta sér vændiskonur til að "nudda" sig. Ekki gengur það hjá manninum sem á að selja erlendis þá stefnu Bush að best sé að stunda helst ekki kynlíf, og USAID rekur líka flest verkefnin erlendis sem vinna gegn vændi. En sem sagt, nú er það Henrietta Fore sem stjórnar. Hún var áður aðstoðarutanríkisráðherra, og ég hitti hana einmitt þegar hún var í því embætti. Hún virðist ágæt - lágvaxin og rauðhærð, og kynnti sig með eigin nafni frekar en titli: "Hello, I'm Henrietta." Ég þarf einmitt að fara upp á þing næsta þriðjudag þar sem öldungadeildin á að leggja blessun sína yfir hana. Mér skilst að Obama hafi mælt gegn henni vegna einhverra minnihlutahópavandræða, svo það verður áhugavert að sjá hvað hann segir við þetta tækifæri. Hún er þó a.m.k. ekki líkleg til að panta sér vændiskonur!

Maður fylgist þessa dagana með Ingibjörgu Sólrúnu í Ísrael og Palestínu. Hún stendur sig bara vel, finnst mér. Hún virðist ekki vera að falla fyrir skjallinu sem báðir aðilar bera í hana, og er heldur ekki með einhverjar óraunhæfar hugmyndir um getu Íslands til þess að taka þátt í friðarferlinu. Ég verð nú bara að segja það að mér finnst bróðir minn líka standa sig mjög vel, og það var gaman að sjá hann spjalla við Hanan Ashrawi. Ég hitti hana einmitt fyrir nokkrum árum í Philadelphiu, og ræddi við hana á stuttum hádegisverðarfundi. Mér fannst hún mjög vel gefin og ekki sérlega herská, þó hún sé ákafur stuðningsmaður síns fólks. Ég heyrði einnig Netanyahu halda ræðu á þeim tíma, og hann var talsvert herskárri og hafði ekkert gott um Palestínumenn að segja, því miður. Vonandi verður einhver breyting til batnaðar fyrir botni Miðjarðarhafs á næstu árum.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband